Aðventutónleikar í Stykkishólmskirkju

4:00pm, Sat, 30 Nov 2019

  • Event Details
  •  
  • Type of event: Performance
    Start time: 4:00pm
    Venue: Aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur
    Description:

    Karlakór Reykjavíkur mun heimsækja Snæfellsnes og flytja aðventudagskrá sína í Stykkishólmskirkju laugardaginn 30. nóvember kl. 16.00. Aðventutónleikar kórsins eru fyrir löngu orðinn fastur liður í tónlistarlífi höfuðborgarinnar fyrir jólin en það var árið 1993 sem kórinn hélt fyrst tónleika í Hallgrímskirkju og hafa þeir ávallt verið fjölsóttir og margir líta á þá sem ómissandi þátt í jólaföstunni.

    Einsöngvari á tónleikunum verður Sigrún Pálmadóttir sópransöngkona en hún lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 1999 og stundaði nám við óperudeild Tónlistarháskólans í Stuttgart frá 1999 - 2001. Sigrún hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum, bæði heima og erlendis auk þess sem hún hefur farið með fjölmörg hlutverk á óperusviðinu, þar á meðal Næturdrottninguna í Töfraflautu Mozarts.

    Með í för verða einnig fastagestir kórsins frá liðnum aðventutónleikunum; orgelleikarinn Lenka Mátéova, trompetaleikararnir Eiríkur Örn Pálsson og Guðmundur Hafsteinsson auk pákuleikarans Eggerts Pálssonar.

    Stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur er Hólmarinn Friðrik S. Kristinsson sem í ár fagnar 30 ára starfsafmæli með kórnum. Hann hóf störf sem raddþjálfari og aðstoðarstjórnandi árið 1989 og tók endanlega við tónsprotanum af Páli Pamplicher Pálssyni sem aðalstjórnandi kórsins árið 1991. Það er við hæfi að Friðrik heimsæki æskuslóðirnar með kórinn sinn á þessum tímamótum.

    Karlakór Reykjavíkur hélt tónleika í Stykkishólmi árið 2008 til styrktar orgelsjóð Stykkishólmskirkju og í samsæti að þeim tónleikum loknum lofaði þáverandi formaður kórsins því að kórinn myndi halda aðventutónleika í kirkjunni þegar orgelið kæmi upp. Það er því kominn tími til að efna það loforð og hlakka kórmenn til heimsóknarinnar og reyna hljóm sinn við hið glæsilega hljóðfæri úr Klais orgelsmiðjunni, en þaðan kemur einmitt stóra orgelið í Hallgrímskirkju.

    Stykkishólmsbúar og Snæfellingar allir eru boðnir velkomnir á tónleikana.