Áttu rödd að ljá okkur?

Type of post: Choir news item
Status: Current
Date Posted: Sat, 24 Aug 2019
Karlakór Reykjavíkur ætlar að bæta við sig söngmönnum og í haust fara fram raddpróf fyrir þá sem hafa áhuga á að slást í hópinn. Við prófum raddsvið og tónheyrn og finnst það kostur ef þú býrð yfir kunnáttu í tónlist og nótnalestri, það er þó alls ekki skilyrði.
Ef þú fimmtugur eða yngri og hefur áhuga á að koma í raddpróf skaltu senda okkur línu á netfangið kor@kkor.is fyrir 8. september næstkomandi og við höfum samband við þig um hæl. Frekari upplýsingar má fá í síma 896-4914.

Vetrarstarfið
Starfsár Karlakórs Reykjavíkur einkennast af tveimur hápunktum. Annars vegar eru það aðventutónleikar í Hallgrímskirkju sem í ár fara fram dagana 14. og 15. desember. Þeir eru alltaf vel sóttir enda fastur liður í jólaundirbúningi fjölmargra landsmanna. Eftir áramót hefjast æfingar fyrir vortónleika í Langholtskirkju sem fara fram í byrjun maí. Á þeim tónleikum leggjum við fram afrakstur vetrarstarfsins og að þeim loknum gleðjumst við ásamt mökum okkar yfir liðnum vetri og fögnum vorkomu. Til viðbótar við þessa föstu liði ætlum við að heimsækja Stykkishólm þ. 30. nóvember, þar sem aðventudagskráin verður flutt í Stykkishólmskirkju auk þess sem við tökum þátt í kóramóti Kötlu, Sambands sunnlenskra karlakóra, á Höfn í Hornafirði um miðjan maí.
Karlakór Reykjavíkur var stofnaður 1926 og hefur starfað samfleytt síðan. Kórinn býður upp á krefjandi og skemmtileg viðfangsefni í tónlist og skemmtilegt félagsstarf í góðum félagsskap. Söngferðir til útlanda eru farnar reglulega auk þess sem byggðir landsins eru heimsóttar til tónleikahalds. Kórinn æfir alla þriðjudaga og annan hvern fimmtudag, tvo tíma í senn, og fara æfingar fram í safnaðarheimili Háteigskirkju.