Karlakór Reykjavíkur merki

Vortónleikar & Austurríkisferð

Senn vorar og söngfuglar fara á stjá. Söngfuglar Karlakórs Reykjavíkur láta þar ekki sitt eftir liggja, enda fjölbreytt dagskrá framundan.

Kórinn syngur á sínum árlegu vortónleikum í Langholtskirkju dagana 22. apríl kl. 17.00, 24. apríl kl. 20.00, 25. apríl kl. 20.00 og 28. apríl kl. 15.00. Með kórnum leikur að vanda píanóleikarinn Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigurður Ingvi Snorrason leikur á klarínettu. Einsöngvari að þessu sinni er fyrrum kórfélagi okkar, Sveinn Dúa Hjörleifsson, sem nú syngur við óperuna í Leipzig í Þýskalandi. Áður söng Sveinn Dúa við óperuna í Linz í Austurríki um fimm ára skeið. Þá syngur kórfélaginn Hjálmar P. Pétursson einnig einsöng.

Söngskráin ber þess merki að kórinn syngur í ágúst á hátíðartónleikum í Graz í Austurríki. Einnig syngur kórinn á Beethoven tónlistarhátíðinni í Bad Aussee með sópransöngkonunni Natalia Ushakova við undirleik sinfóníuhljómsveitar hátíðarinnar.  Austurríkisferðin er farin til heiðurs Páli Pampichler Pálssyni sem var annar stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur. Páll var mikill áhrifavaldur í íslensku tónlistarlífi á síðari hluta síðustu aldar, en er nú búsettur í Graz.

Stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur er Friðrik S. Kristinsson, sem hóf stjórnandaferil sinn undir handleiðslu Páls Pampichler fyrir hartnær þrjátíu árum.