Saga kórsins

Stiklað á stóru í sögu Karlakórs Reykjavíkur

Karlakór Reykjavíkur var stofnaður 3. janúar 1926. Aðalhvatamaður að stofnun hans var Sigurður Þórðarson tónskáld, sem stjórnaði kórnum samfellt, að einu ári undanskildu, til ársins 1962.

Strax árið 1931 hóf kórinn að fara í söngferðir. Fyrst innanlands en árið 1935 fór kórinn í söngferð til Norðurlanda. Sungið var í Bergen, Osló, Stokkhólmi, Gautaborg og Kaupmannahöfn. Einsöngvari í þessari för var Stefán Íslandi og undirleikari Emil Thoroddsen.

Þessi fyrsta þolraun kórsins á erlendri grund þótti takast svo vel að upp frá því var kórinn eftirsóttur til hljómleikahalds bæði austan hafs og vestan. Má sem dæmi nefna aðra ferð til Evrópu árið 1937 og áætlaða umfangsmikla söngferð til Ameríku 1939. Búið var að ganga frá öllum þáttum þeirrar ferðar en vegna seinni heimsstyrjaldarinnar var henni slegið á frest. Hún var farin strax að styrjöldinni lokinni árið 1946. Í þeirri ferð voru sungnir 56 konsertar og í annarri Ameríkuferð árið 1960 voru sungnir 39 konsertar. Auk þess hefur kórinn farið í söngferðir til Miðjarðarhafslanda og margar söngferðir til Evrópu og Ameríku. Í þessum söngferðum hefur kórinn ávallt lagt áherslu á að kynna íslenska tónlist.

Karlakór Reykjavíkur heimsótti Kína árið 1979 fyrstur allra kóra frá vesturlöndum eftir Menningarbyltinguna. Kórinn hélt tónleika í Þýskalandi og Austurríki árið 2006, m.a. í Graz, heimabæ Páls Pampichlers Pálssonar fyrrverandi stjórnanda kórsins. Páll var viðstaddur þessa tónleika og stjórnaði þar einu lagi. Þá heimsótti kórinn Færeyjar í desember 2007 og hélt aðventutónleika í Klakksvík og Þórshöfn. Utanlandsferðir kórsins eru orðnar 23 nú síðast var Páll Pamplicher heimsóttur öðru sinni í söngferð kórsins til Austurríkis sumarið 2018.

Ótaldar eru fjölmargar söngferðir innanlands svo og árlegir vortónleikar og jólatónleikar fyrir styrktarfélaga sem nú eru hátt í tvö þúsund. Allir fremstu einsöngvarar Íslands bæði fyrr og síðar hafa sungið með Karlakór Reykjavíkur á tónleikum heima og erlendis.

Árið 1962 festi kórinn kaup á húsnæði fyrir starfsemi sína að Freyjugötu 14. Félagsheimilið var vígt 29. febrúar 1964. Árið 1998 rættist sá langþráði draumur að kórinn kæmist í nýtt og betra húsnæði sem auk félagsheimilis væri sérhannaður tónleikasalur. Kórinn flutti alla sína starfsemi í nýtt og glæsilegt hús að Skógarhlíð 20 þann 1. september 1998. Félagsheimilið hlaut nafnið Ýmir og er hið glæsilegasta á allan hátt. Ýmir reyndist kórnum dýr auk þess sem húsnæðið hentaði ekki starfsemi kórsins.Ýmir var því seldur í mars mánuði 2006 og keypt var hæð að Grensásvegi 13 sem fékk nafnið Gerðhamrar eftir fæðingarstað stofnandans.  Þar starfaði kórinn til ársins 2015 en það ár varð stefnubreyting í húsnæðismálum kórsins; Gerðhamrar voru seldir og hefur kórinn nú góða aðstöðu í safnaðarheimili Hágeigskirkju þar sem hann æfir einu sinni til tvisvar í viku.

Það hefur verið gæfa Karlakórs Reykjavíkur að hafa ávallt á að skipa frábærum söngstjórum. Stjórnendur kórsins í gegnum tíðina hafa verið Sigurður Þórðarson, þá Páll Ísólfsson, Jón S. Jónsson, Páll Pampichler Pálsson og Catherine Willams. Núverandi söngstjóri er Friðrik S. Kristinsson.

Copyright © 2024 Karlakór Reykjavíkur