Styrktarfélagar

Styrktarfélag Karlakórs Reykjavíkur – Líflínan langa 

Að keyra áfram dugmikinn kór karla í tæpa öld hefur stundum verið svolítil þraut og því miður ekki einungis í tónlistarlegum skilningi. Starfsemin er svo fjarri því að vera fjárplógsfær, að stundum hefur horft til vandræða. En þau verða ekki rifjuð upp hér. Nema eitt atvik, og það er fyrsta utanlandsferð kórsins 1935 er haldið var til annarra Norðurlanda – fyrsta stopp Færeyjar. Þessi utanför varð til þess að um kórinn vöfðust skuldafjötrar sem numu þúsundum króna. Ekki lítið fé í þá daga. 

Eitt dæmi um hve lítt hefur stundum verið hugsað um hagnaðinn er strax af fyrsta starfsárinu. Þá, 1926, ákvað kórinn að halda sérstakan „alþýðusamsöng“ í Nýja bíói og rukka eina krónu inn – en í þá daga var aðgöngumiði á tónleika gjarnan verðlagður þrefalt það. Hverjum söngmanni var þetta fyrsta árið gert að greiða 10 krónur í inntökugjald sem dugði skammt til því Silli og Valdi rukkuðu 90 krónur á mánuði í leigu fyrir æfingahúsnæðið. Þið getið ímyndað ykkur hvort það var mikill hagnaður af rekstri kórsins. 

Norðurlandaförin 1935 var rifjuð upp hér að ofan því hún varð til þess að ákveðið var á fundi sama ár að „afla [kórnum] styrktarfélaga sem borguðu ákveðna upphæð til kórsins árlega en fengju í staðinn miða á vorsamsöngva. Þetta styrktarmannakerfi reyndist vera hið mesta heillaráð þegar fram í sótti,“ svo vitnað sé í opinbera sögu kórsins, skrásetta af Þorgrími Gestssyni árið 2001.

Án þeirra hundraða sem gerst hafa sérstakir styrktarfélagar Karlakórs Reykjavíkur hefði ferðin áfram veginn verið torfærari mjög. Styrktarfélagar kórsins eru ómetanleg líflína hans – óslitin allt frá 1935. Upphaflega styrktarmannakerfið er enn óbreytt. Velgjörðarfólk vort greiðir hóflegt árlegt gjald og við þökkum fyrir með tveimur aðgöngumiðum á vortónleika. Hver og einn félagi ákveður hverju sinni hvort hann greiðir gjaldið það árið eður ei.
Copyright © 2024 Karlakór Reykjavíkur