Tónleikaröð í Háteigskirkju

Type of post: Choir news item
Sub-type: No sub-type
Posted By: Arnar Halldórsson
Status: Current
Date Posted: Sun, 2 Oct 2022
Karlakór Reykjavíkur hefur sitt 96. starfsár af miklum krafti með tónleikaröð nú október 2022 í Háteigskirkju. En vegna samkomutakmarkana undanfarinna ára hefur ekki verið haldin viðburður á vegum kórsins síðan á aðventu 2019.

Tónleikarnir í Háteigskirkju verða haldnir:

Þriðjudaginn 4. október kl. 20.00
Miðvikudaginn 5. október kl. 20.00
Fimmtudaginn 6. október kl. 20.00
Laugardaginn 8. október kl. 15.00

Að sögn Friðriks S. Kristinssonar, stjórnanda okkar til 32 ára, verður frábært að að syngja í fyrsta skiptið tónleika í Háteigskirkju, en kirkjan er mjög hljómfögur og kirkjuskipið einkar fallegt.
Og til gamans má geta að í kring um 1970 voru allar SG-hljómplötur kórsins hljóðritaðar í Háteigskirkju.
 
Hefðbundið starf kórsins snýst að mestu um undirbúning fyrir Aðventutónleika í Hallgrímskirkju og Vortónleika sem við brjótum þó öðru hvoru upp með tónleikum á landsbyggðinni og á erlendri grund.
Ekki tókst að halda tónleika í vor þannig að líta má á þessa tónleikaröð sem „Vortónleika að hausti“
Það er gaman að geta þess að nýliðun hefur verið góð undanfarin ár þrátt fyrir hömlur á starfseminni.  Í lögum kórsins segir að söngmaður sé ekki fullgildur félagi fyrr en hann hefur sungið vortónleika, og má reikna með að nýir söngmenn geri sig gilda með kórnum að þessu sinni. 
 
Aðalgestur kórsins nú er Jóna G. Kolbrúnardóttir, sópran. Hún útskrifaðist með meistaragráðu frá Óperuakademíunni við Konunglegu óperuna í Kaupmannahöfn og hefur komið víða fram þrátt fyrir ungan aldur. Þar má nefna sem dæmi stórkostlega frammistöðu hennar í Klassíkinni okkar 2021 á RÚV og ekki síst hlutverk hennar sem Papagena í Töfraflautunni, sem sett var upp í Kaupmannahafnaróperunni í september 2020. Karlakór Reykjavíkur er sannur heiður að samstarfi við þessa ungu listakonu í fjórum fallegum einsöngslögum.
Við eigum marga góða tenóra og einn þeirra er Ari Jóhann Sigurðsson. Hann stígur fram og syngur einsöng í tveimur lögum með kórnum.
Við eigum því láni að fagna að Peter Maté, margverðlaunaður píanóleikari og prófessor við Listaháskóla Íslands, mun leika á flygilinn með okkur að þessu sinni og lofar það samstarf afar góðu.
 
Vettvangur viðburðarins er Háteigskirkja.  Kórinn hefur undanfarin ár haft aðstöðu til æfinga í safnaðarheimili kirkjunnar og má því segja að við séum á  heimavelli. 
 
Efnisskráin er fjölbreytt og spennandi. Hún byggir á þekktum íslenskum perlum í bland við norræn sönglög og útúrdúra til Eystrasaltsríkja og Suðurríkja Bandaríkjanna. Óneitanleg litast hún af vorkomu og hækkandi sól, enda er það sígilt viðfangsefni sem á alltaf við.

Að tónleikaröðinni lokinni tekur við undirbúningur fyrir næsta verkefni.
Í ár erum við afar spenntir fyrir samstarfi við frændur okkar í Tórshavnar Manskór.
Við stefnum að því að syngja inn aðventuna með þeim í Færeyjum og taka á móti þeim 10-11 desember á sameiginlegum aðventutónleikum í Hallgrímskirkju

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á fésbókarsíðu kórsins og Tix.is
Einnig eru seldir miðar við innganginn.

Arnar Halldórsson
Formaður
Karlakórs Reykjavíkur